Skýrsla fræðslunefndar Félags um skjalastjórn starfsárið 2012-2013

Nefndarmenn

Á aðalfundi Félags um skjalastjórn 26. apríl 2012 voru
eftirtaldir kjörnir í fræðslunefnd félagsins: Sara Halldórsdóttir skjalastjóri
hjá Landlæknisembættinu, Gríma Eik Káradóttir, skjalastjóri hjá
Skipulagsstofnun og Njörður Sigurðsson sviðsstjóri skjalasviðs Þjóðskjalasafns
Íslands og varaformaður félagsins. Hann var jafnframt formaður fræðslunefndar.

Starf fræðslunefndar

Starf fræðslunefndar var hefðbundið sl. vetur. Fræðslunefnd
sá um að skipuleggja og halda utan um fræðslufundi vetrarins sem voru alls sex
talsins auk þess fræðsluerindis sem verður hér á eftir aðalfundarstörfum. Fræðslufundirnir
voru haldnir að venju í hádeginu á fimmtudögum og var boðið upp á veitingar á
fundunum. Jólafundurinn var haldinn á fimmtudagseftirmiðdegi og boðið upp á
hátíðlegri og léttari veitingar. Fræðslufundi vetrarins sóttu á þriðja hundruð
félagsmanna. Glærur frá flestum fræðslufundum vetrarins eru aðgengilegar á vef
félagsins.

Sl. haust varð breyting á skráningu félagsmanna á
fræðslufundi sem nú fer í gegnum vef félagsins. Félagsmenn þurfa allir að skrá
sig inn á vefinn með sínu notendanafni og lykilorði og skrá sig svo sérstaklega
á fræðslufundi. Nauðsynlegt er að skrá sig á fræðslufundi svo unnt sé að áætla
innkaup á veitingum fyrir hvern fund.

Fræðslufundirnir

Fyrsti fræðslufundur vetrarins var 20. september og var þá
farið í heimsókn í nýtt húsnæði Héraðsskjalasafns Kópavogs. Þar tóku á móti
félagsmönnum Hrafn Sveinbjarnarson héraðsskjalavörður og Gunnar Marel
Hinriksson skjalavörður og fræddu viðstadda um starfsemi safnsins og sýndu
húsakostinn.

Næsti fræðslufundur var 25. október í Þjóðskjalasafni
Íslands þar sem Gylfi Dalmann lektor í við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla
Íslands flutti erindi um ólíkar kynslóðir á vinnumarkaði.

Jólafundur félagsins var haldinn í Þjóðskjalasafni Íslands
þann 22. nóvember. Ákveðið var að halda jólafundinn svo snemma til að hann
rækist ekki á við annir desembermánaðar. Á jólafundinum kynnti Hrafnhildur
Ragnarsdóttir, skjalavörður á Þjóðskjalasafni, helstu niðurstöður
eftirlitskönnunar sem Þjóðskjalasafn gerði meðal ríkisstofnana í byrjun árs
2012. Eftir fundinn var að vanda boðið upp á léttar veitingar.

Fyrsti fræðslufundur ársins 2013 var haldinn 17. janúar á
Icelandair Hotel Natura. Svala Rún Sigurðardóttir skjalastjóri hjá Icelandair
Group flutti þar erindið „Innleiðing skjalastjórnar með eflingu skjalavitundar
– Húmor og gleði í fyrirrúmi þar sem breytingar snúast um fólk“. Þann fund
sóttu um 60 manns, sem var fjölmennasti fræðslufundurinn á þessum vetri.
Icelandair bauð upp á veitingar og útvegaði húsnæði undir fundinn og ber að
þakka það.

Þann 28. febrúar flutti Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri löggjafarmála
í forsætisráðuneytinu erindi um nýju upplýsingalögin sem tóku gildi um síðustu
áramót. Fundurinn fór fram í fyrirlestrarsal Þjóðarbókhlöðunnar. Sú nýbreytni
var gerð fyrir þennan fund að hver félagsmaður mátti hafa með sér gest á
fundinn. Mættu alls um 55 manns á þennan fund og skilaði gestaboðið sér m.a. í
að nokkrir nýir félagsmenn skráðu sig í félagið.

Fræðslufundur marsmánaðar var haldinn 21. mars í sal
Þjóðarbókhlöðunnar en þar flutti Harpa Sólbjört Másdóttir, skjalastjóri í
atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu erindi um hvernig hugað var að skjalamálum
við sameiningu ráðuneyta haustið 2012.

Síðasta fræðsluerindi vetrarins er svo erindi Hjálmars
Gíslasonar hjá DataMarket um landsins gögn og nauðsynjar sem hann flytur hér á
eftir aðalfundarstörfum.

29. apríl 2013

Njörður Sigurðsson, formaður fræðslunefndar

Copyright © 2016 IRMA. All Rights Reserved. Hönnuð af Davið og Golíat.

Félag um skjalastjórn kt. 580189-2029 Pósthólf 8731, 128 Reykjavík