Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2011-2012

Á síðasta aðalfundi félagsins sem haldinn var þann 28. apríl 2011 voru eftirtaldir kosnir í stjórn félagsins:

Daldís Ýr Guðmundsdóttir, formaður

Guðrún Birna Guðmundsdóttir, varaformaður

Sólveig Magnúsdóttir, gjaldkeri

Njörður Sigurðsson, ritari

Guðbjörg Eva Friðgeirsdóttir meðstjórnandi

Eva Ósk Ármannsdóttir varamaður.

Skoðunarmenn reikninga voru kosnir og eru það Ingibjörg Sverrisdóttir og Dagrún Árnadóttir.

Áherslur stjórnar og stjórnarfundir

Stjórn félagsins lagði upp með að funda mánaðarlega, og voru haldnir átta stjórnarfundir á tímabilinu, sá síðasti nr. 195 í sögu félagsins. Einn óformlegur vinnufundur var haldinn fyrir stjórn og nefndarmenn en að auki hittust stjórnarmeðlimir eftir þörfum vegna verkefna. Áhersla stjórnar fyrir starfsárið fólst í því að fylgja markmiðum félagsins og standa fyrir fræðslu til félagsmanna. Einnig var lagt upp með að halda áfram góðu starfi fyrri stjórnar við að skrá þekkingu stjórnarmanna og gera vinnulýsingar til auðvelda þeim sem á eftir koma.

Félagatal

Erfitt hefur verið að halda utan um réttan fjölda félagsmanna en væntingar eru til þess að það muni lagast með tilkomu nýrrar vefsíðu félagsins. Ástæðan fyrir þessu er að hluta tilkomin vegna tæknilegra þátta. Í dag eru félagar 223 talsins en í haust var gerð nokkur hreinsun á félagatalinu. Margir nýir félagsmenn hafa bæst í hópinn og nokkrir hafa skráð sig úr félaginu á tímabilinu. Nokkrir félagar sögðu sig úr félaginu eftir að þær breytingar áttu sér stað að ekki er lengur hægt að fá greiðsluseðil fyrir félagsgjöldum sendan á fyrirtæki. Undanþegnir félagsgjöldum eru stjórnar- og nefndarmenn auk heiðursfélaga.

Nefndir

Samkvæmt venju voru tvær nefndir starfandi á vegum félagsins, fræðslunefnd og ritnefnd. Í fræðslunefnd sátu Guðrún B. Guðmundsdóttir formaður, Arna Eggertsdóttir og Inga Dís Karlsdóttir. Í ritnefnd sátu Guðbjörg Eva Friðgeirsdóttir formaður, Hrafnhildur G. Stefánsdóttir og Sigríður Björk Einarsdóttir vefstjóri. Þær Guðrún Birna og Guðbjörg Eva gera ítarlegri grein fyrir störfum nefndanna hér á eftir.

Starfsemi vetrarins og helstu verkefni

Nýr formaður boðaði til fundar í lok maí 2011 þar sem gamlir og nýir stjórnarmenn skiptu með sér verkum og fengu gögn afhend. Fráfarandi stjórn útbjó möppur fyrir hvern stjórnarmann til þess að hver og einn fengi hagnýtar upplýsingar og gæti haldið gögnum til haga á sinni stjórnartíð. Möppurnar eiga svo að ganga frá manni til manns eftir því sem mannabreytingar verða á stjórn félagsins.

Á fundinum fengu viðstaddir félagsmenn þær sorgarfréttir að Laufey Ingibjartsdóttir, félagi okkar og stjórnarmaður til fjögurra ára hefði látist þann 17. maí eftir erfið veikindi. Ákveðið var að félagið myndi styrkja syni hennar með peningagjöf og var fjölskyldu hennar send samúðarkveðja fyrir hönd félagsmanna. Félagsmenn virtust almennt hlynntir framtakinu og er stjórnin þakklát fyrir það hversu margir félagsmenn settu sig í samband vegna þessa máls og lýstu yfir stuðningi með framtakið.

Upplýsingamiðlun

Mikil vinna hefur farið fram til þess að efla upplýsingamiðlun og fræðslu til félagsmanna. Facebook síða félagsins varð til í ágúst og undirbúningur fyrir gerð nýrrar vefsíðu hófst. Ákveðið var að koma upp nýrri vefsíðu fyrir félagið því sú gamla uppfyllti ekki lengur þær kröfur sem við gerum til slíkrar síðu. Ritnefnd félagsins ásamt Sigríði Björk Einarsdóttur, vefstjóra, sá um að gera þarfagreiningu fyrir nýja síðu og leita eftir tilboðum í gerð og hýsingu. Talsverð vinna hefur falist í því að hanna síðuna og flytja yfir efni, en Sigríður Björk hefur lagt á sig ómælda vinnu við verkið. Sigríður Björk kynnir síðuna betur hér á eftir.

Árgjald

Í september var félagsmönnum tilkynnt um að greiðsluseðlar vegna árgjalda myndu framvegis ekki verða sendir á fyrirtæki heldur einungis á félagsmenn sjálfa. Við þetta fyrirkomulag verður mikill vinnusparnaður fyrir stjórn og þá sérstaklega fyrir gjaldkera. Utanumhald félagaskrár og innheimta árgjalda er mun einfaldari fyrir vikið. Þessi breyting gerði það að verkum að fólk varð meðvitaðra um félagsaðild sína og kom í ljós að einhverjir sem töldu sig vera skráða félaga voru það ekki og öfugt, því sumir töldu sig hafa þegar sagt sig úr félaginu. Breytingarnar féllu í misgóðan jarðveg hjá félagsmönnum en við megum gjarnan hafa það í huga að það er mikil sjálfboðavinna sem liggur að baki því að starfrækja félagið og mikilvægt er að bera virðingu fyrir því góða starfi sem stjórn og nefndir félagsins leggja á sig fyrir okkur hin.

Jólafundur

Jólafundur félagsins var haldinn 8. desember í sal Þjóðskjalasafns. Erindi fluttu Anna Lóa Ólafsdóttir, náms- og starfsráðgjafi og Lísbet Einarsdóttir hjá Lectura. Anna Lóa fjallaði um hamingjuna en Lísbet brá á leik og hjálpaði viðstöddum að skilja betur hvorn annan. Rúmlega þrjátíu félagsmenn höfðu boðað komu sína á fundinn en talsvert færri mættu þegar upp var staðið. Kostnaðurinn við fundinn var því hlutfallslega mikill því gert hafði verið ráð fyrir veitingum fyrir alla sem voru skráðir. Reynslan kennir okkur að kannski þarf jólafundurinn að vera á dagskrá áður en aðventan gengur í garð og áður félagsmenn verða of uppteknir í jólaamstrinu.

Vinnufundur

Vinnufundur stjórnar og nefnda var haldinn 23. febrúar. Ákveðið var að hittast eitt síðdegi til að vinna að málum sem ekki næst að fara yfir á hefðbundnum stjórnarfundum. Á fundinum var m.a. lögð drög að fyrirhugðum lagabreytingum, farið yfir siðareglur félagsins, farið yfir hlutverk og ábyrgðir stjórnarmanna og farið yfir vinnulýsingar fyrir undirbúning aðalfundar. Einnig var rætt um að félagið fagnar 25 ára afmæli á næsta ári áhugi er fyrir því að gera eitthvað sérstakt að því tilefni. Vinnufundurinn tókst vel og voru allir þátttakendur sammála um að svona fundur væri nauðsynlegur til að framkvæma hin ýmsu verk sem væru of tímafrek fyrir hádegisfundi, auk þess sem stjórnar- og nefndarmenn efla tengsl og kunningsskap sín á milli.

Nýtt merki (logo)

Í október var ákveðið að auglýsa eftir sjálfboðaliðum til að starfa í nefnd til að velja nýtt merki (logo) fyrir félagið. Skemmst er frá því að segja að enginn bauð sig fram í nefndina. Stjórnin leitaði því eftir tilboðum frá nokkrum grafískum hönnuðum. Í febrúar var ákveðið að taka tilboði frá Helgu Valdísi Árnadóttur um hönnun nýs merkis. Helga Valdís er sjálfstætt starfandi grafískur hönnuður en hún gerði nokkrar tillögur sem stjórnin síðan valdi úr. Nýtt merki verður kynnt hér á eftir þegar við frumsýnum nýju vefsíðuna.

Lokaorð

Ég vil þakka stjórn og nefndum félagsins kærlega fyrir frábæra vinnu og afar gott samstarf. Sérstaklega vil ég þakka þeim sem nú hverfa frá störfum. Ég vil þakka ykkur, félagsmönnum, fyrir góða mætingu á viðburði félagsins í vetur og vona að þið haldið áfram að vera virkir meðlimir því það er mikil hvatning fyrir okkur sem skipuleggjum vetrarstarfið að sjá viðburði vel sótta. Ég vil einnig þakka ykkur fyrir að sýna mér traust til að gegna formennsku í félaginu ykkar. Það er talsverð vinna sem fylgir formannsstarfinu en jafnframt er það mikill lærdómur og ómetanleg reynsla. Ég er stolt af verkum stjórnarinnar í vetur og ég veit að þetta góða starf mun halda áfram. Ég hef því ákveðið að gefa kost á mér áfram sem formaður félagsins.

Kópavogur, 20. apríl 2012 – Daldís Ýr Guðmundsdóttir, formaður.

Copyright © 2016 IRMA. All Rights Reserved. Hönnuð af Davið og Golíat.

Félag um skjalastjórn kt. 580189-2029 Pósthólf 8731, 128 Reykjavík