Í fræðslunefnd störfuðu Halldóra Kristbergsdóttir, Ingibjörg Hallbjörnsdóttir og Unnur Rannveig Stefánsdóttir.

Nefndin hélt fund í september 2009 og lagði drög að dagskrá vetrarins þar sem ákveðið var að hafa dagskrána með svipuðu sniði og undanfarin ár og bjóða upp á blöndu af fyrirlestrum og heimsóknum í fyrirtæki og stofnanir. Eftir áramótin voru haldnir nokkrir fundir vegna undirbúnings að komu Julie McLeod til landsins. Boðun funda fór fram í gegnum póstlista félagsins og dagskrá var einnig birt á vef félagsins.  Einnig var sagt var frá viðburðunum á vefnum og myndir settar inn.  Samkvæmt áralangri venju voru fræðslufundir í hádeginu fyrsta fimmtudag hvers mánaðar og var boðið upp á drykki og samlokur til að auðvelda félagsmönnum þátttöku. Alls voru sjö viðburðir skipulagðir af hálfu fræðslunefndar.

Dagskráin var sem hér segir: 
10. september buðu Ásdís Káradóttir og Jón E. Böðvarsson félagsmönnum í heimsókn og skoðunarferð um Alþingishúsið. Vegna mikillar þátttöku urðu skoðunarferðirnar tvær, fyrir og eftir fyrirlestur Ásdísar um starfsemi Alþingis og skjalasafn þingsins. Fjöldi gesta var yfir 50.

1. október var efni fræðslufundar reglur Þjóðskjalasafns Íslands um rafræn opinber gögn og skil á þeim til safnsins. Fyrirlesarar voru Júlía Pálmadóttir Sighvats og Njörður Sigurðsson sérfræðingar hjá Þjóðskjalasafninu. Fjöldi gesta var 33.

5. nóvember var fjallað um tölvurannsóknir og haldlagningu rafrænna gagna. Fyrirlesarar voru Birgir Jónasson lögfræðingur frá embætti sérstaks saksóknara og Steinarr Kr. Ómarsson lögreglufulltrúi hjá Ríkislögreglustjóra. Fjöldi gesta var 28.

7. janúar var heimsókn í Ljósmyndasafn Reykjavíkur þar sem Kristín Hauksdóttir og Gísli Helgason, verkefnastjórar hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur, héldu fyrirlestur um meðferð og skráningu ljósmynda. Fjöldi gesta  var 39.

5. febrúar var haldinn fræðslufundur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem Ásgerður Kjartansdóttir deildarstjóri sagði frá meðferð erinda og gerð gæðahandbókar í ráðuneytinu. Fjöldi gesta var 34.

4.mars bauð Kristín Ósk Hlynsdóttir safnastjóri hjá Ríkisútvarpinu upp á skoðunarferð um söfn stofnunarinnar. Takmarka varð fjöldann við 30 manns og þurftu nokkrir frá að hverfa. Vonandi  verður hægt að fá aðra skoðunarferð síðar..

9. apríl hélt Julie McLeod, prófessor í skjalastjórn við Northumbria háskólann í Newcastle fyrirlestur fyrirlestur um rannsókn í rafrænni skjalastjórn sem hún og samstarfsmenn hennar hafa unnið að frá árinu 2007 undir yfirskriftinni Accelerating Positive Change in Electronic Records Management. Sama dag eftir hádegi hélt Julie námskeið í tveimur hlutum um stjórnun rafrænna skjala, m.a. í tengslum við Web. 2.0. Um 80 manns sóttu fyrirlesturinn og 65 námskeiðið.

Hægt er að nálgast glærur, myndir og frekari fróðleik um fyrirlestra og heimsóknir á vef félagsins: www.irma.is

Ingibjörg Hallbjörnsdóttir
formaður fræðslunefndar

Copyright © 2016 IRMA. All Rights Reserved. Hönnuð af Davið og Golíat.

Félag um skjalastjórn kt. 580189-2029 Pósthólf 8731, 128 Reykjavík