Í orðanefnd Félags um skjalastjórn eru Ásgerður Kjartansdóttir, Jóhanna Gunnlaugsdóttir og Kristín Ólafsdóttir. Vegna anna hjá nefndarkonum var aðeins haldinn einn fundur í nefndinni á starfsárinu. Þar var farið yfir ítarlega skýrslu um starf orðanefndar á árunum 1997-2004 sem fyrrverandi formaður, Stefanía Júlíusdóttir, vann fyrir aðalfund félagsins 2004.

Orðanefnd telur mikilvægt að unnið verði að orðasafni í skjalastjórn, bæði á íslensku og ensku, sem aðgengilegt verði á vef Íslenskrar málstöðvar en málstöðin hýsir íðorðasöfn ýmissa fagfélaga.

  • Til grundvallar við vinnslu orðasafnsins verði eftirfarandi:
  • Drög að skjalorðasafni sem unnið hefur verið að á vegum orðanefndar um árabil
  • Skjalastjórn – orðalisti : enska-íslenska : íslenska-enska (útg. af Félagi um skjalastjórn, 1989)
  • Nokkur hugtök í bókasafnsfræði, upplýsingafræði og skjalfræði : ensk-íslensk og íslensk-ensk (útg. af Háskóla Íslands, bókasafns- og upplýsingafræði, 1990)

Til að vinna orðasafnið þarf einnig að gera yfirlit yfir rit og tímaritsgreinar á íslensku sem tengjast skjalastjórn og orðtaka þau, auk þess sem orðtaka þarf íslenska staðalinn um skjalastjórn ÍST ISO 15489.

Við vinnslu orðasafnsins verði haft til hliðsjónar ritið Glossary of Records Management Terms sem ARMA hefur gefið út.

Mikil vinna liggur í að orðtaka rit og til tals hefur komið hjá nefndinni að nýta nemendur í bókasafns- og upplýsingafræði við verkið.

Þær sem nú sitja í orðanefnd hafa áhuga á að starfa í nefndinni áfram og vinna þá ítarlega verkáætlun ásamt kostnaðaráætlun sem lögð yrði fyrir stjórn félagsins. Jafnframt er nefndin tilbúin að leita styrkja til verkefnisins í samráði við stjórnina.

Reykjavík 4. maí 2006

f.h. orðanefndar Félags um skjalastjórn

Ásgerður Kjartansdóttir

Copyright © 2016 IRMA. All Rights Reserved. Hönnuð af Davið og Golíat.

Félag um skjalastjórn kt. 580189-2029 Pósthólf 8731, 128 Reykjavík