Á starfsárinu komu út tvö tölublöð Fréttabréfsins, í júní 2005 og mars 2006. Til stóð að júníblaðið kæmi út fyrr um vorið, en ýmislegt tafði útgáfu þess. Það var hins vegar afar veglegt, 12 síður fullar af fróðleik eftir ýmsa höfunda, greinar, pistlar og viðtöl.

Marsblaðið, 8 bls., hefur nýlega borist félagsmönnum í hendur. Meðal efnis í því er grein eftir Jóhönnu Gunnlaugsdóttur um skjalahald í tímans rás og Inga Dís Karlsdóttir, formaður félagsins, skrifar um hvernig koma megi nýja skjalastjórnarstaðlinum í gagnið. Báðar hafa lagt ritstjórn gott lið við útgáfu fréttabréfsins og þær og aðrir sem lagt hafa til efni eiga þakkir skildar. Þeir sem leitað hefur verið til hafa undantekningalaust tekið beiðnum um efni og viðtöl ljúfmannlega. Einnig ber að þakka stjórn félagsins samvinnuna, bæði núverandi og fyrrverandi, sem og ritstjórnarmeðlimum. Kristín Geirsdóttir og Baldvin Zarioh sátu í ritstjórn ásamt undirritaðri í tvo vetur, 2003-2005, en Guðrún Reynisdóttir leysti þau af í vetur.

Sem fyrr hefur blaðinu verið dreift til nema í bókasafns- og upplýsingafræðskor í Háskóla Íslands, enda fylgir því sáralítill kostnaður að prenta 100 aukaeintök og stefna félagsins hefur verið að laða að fleiri félaga. Leitað hefur verið eftir auglýsingum hjá hugbúnaðarfyrirtækjum í skjalastjórn til að draga úr kostnaði við útgáfuna, en hann er allmikill. Fyrir þremur árum kom til álita að gefa fréttabréfið aðeins út rafrænt, bæði í sparnaðarskyni og í takt við nýja tíma. Þá þótti það ekki nægilega fýsilegur kostur en nú kynni hins vegar að vera lag.

Loks langar mig að geta þess að Magnús Guðmundsson, ritstjóri fréttabréfsins til margra ára, ætlum okkur að skanna öll tölublöð þess frá upphafi, 31 að tölu, og færa félaginu að gjöf. PDF-útgáfum mætti koma fyrir á vef félagsins, til fróðleiks og skemmtunar. Þetta er gert í kveðjuskyni, en nú læt ég af störfum sem ritstjóri.

Reykjavík, maí 2006

Ásdís Káradóttir

Copyright © 2016 IRMA. All Rights Reserved. Hönnuð af Davið og Golíat.

Félag um skjalastjórn kt. 580189-2029 Pósthólf 8731, 128 Reykjavík