Á síðasta aðalfundi félagsins sem haldinn var í lok apríl í fyrra voru eftirtaldir kosnir í stjórn. Alma Sigurðardóttir kosin formaður. Andrés Erlingsson kosinn varaformaður. Eyrún Gestsdóttir, Guðrún Erlendsdóttir, Sigurður Þór Baldvinsson og Ragnhildur Bragadóttir. Endurskoðendur voru kosnir þeir Þorsteinn Magnússon og Jónas Finnbogason.

Haldnir voru 7 stjórnarfundir á árinu og var síðasti stjórnarfundur í félaginu númer 135 frá stofnun félagsins.

Félagar í Félagi um skjalastjórn eru nú 194. Sex nýir félagar bættust við á árinu og einn gekk úr því.

Vetrarstarf félagsins hófst með ráðstefnu þann 17. september 2002 sem haldin var í samvinnu við Skýrslutæknifélag Íslands. Ráðstefnan var haldin á Grand Hótel. Yfirskrift ráðstefnunnar var "Með vitið á sínum stað – þekkingarstjórnun, þykjustuleikur eða alvara?" Á undan ráðstefnunni var haldin sýning á hugbúnaðarlausnum fyrir skjalastjórn. Fimm fyrirlesarar voru á ráðstefnunni sem komu úr ýmsum áttum, svo sem háskólakennari, starfandi ráðgjafi og bókasafnsfræðingar. Ráðstefnustjóri var Helga Jónsdóttir, borgarritari, en ráðstefnuna setti Guðfinna S. Bjarnadóttir rektor Háskólans í Reykjavík. Mjög góð þáttaka var á þessari ráðstefnu en gestir voru 144. Tókst þessi ráðstefna í alla staði geysi vel. Peningalegur ágóði félagsins nam 250 þús. kr. Formaður og varaformaður félagsins voru í undirbúningsnefnd fyrir ráðstefnuna en haldnir voru 8 undirbúningsfundir fyrir hana.

Farið var í heimsókn til Borgarskjalasafns Reykjavíkur þann 1. nóvember 2002. Var safnið skoðað undir leiðsögn Svanhildar Bogadóttur, borgarskjalavarðar, og starfsmanna safnsins. Að lokinni skoðun var boðið upp á veitingar.

Á árinu veitti bandaríska sendiráðið félaginu styrk að upphæð 1.000 dollarar sem verja átti til að greiða fyrir bandarískan fyrirlesara sem væri fyrirlesari á fundi á vegum félagsins. Þann 2. apríl 2003 hélt félagið fræðslufund í Þjóðarbókhlöðu um varðveislu gagna út frá sagnfræðilegu sjónarmiði og var þar fyrirlesari Dr. Charles Williams, Fulbright prófessor við sagnfræðiskor Háskóla Íslands.

Tvö fréttabréf voru gefin út á árinu. Heimasíða félagsins hefur ekki verið uppfærð og hefur stjórnin leitað til eins stjórnarmanns um að hann taki að sér umsjón með heimasíðunni.

Ég hef ákveðið að gefa ekki kost á mér til áframhaldandi formennsku í félaginu en mundi gjarnan vilja starfa áfram sem einn af stjórnarmönnum félagsins. Vil ég í lokin þakka meðstjórnarmönnum mínum samstarfið og öllum þeim sem ég hef þurft að hafa samskipti við í þessu embætti.

29. apríl 2003

Alma Sigurðardóttir

formaður

Copyright © 2016 IRMA. All Rights Reserved. Hönnuð af Davið og Golíat.

Félag um skjalastjórn kt. 580189-2029 Pósthólf 8731, 128 Reykjavík