Á síðasta aðalfundi 26. apríl 2000 voru kosnir 2 nýir stjórnarmenn. Margrét Eva Árnadóttir var kosin varaformaður í stað Sigrúnar Hauksdótur og Eyrún Björk Gestsdóttir tók við af Guðbjörgu Gígju Árnadóttur. Sigurður Þór Baldvinsson sat áfram sem formaður. Auk hans sátu áfram Anna Sigríður Gunnarsdóttir, gjaldkeri, Kristín Richardsdóttir, ritari, og Ragnhildur Bragadóttir varamaður. Endurskoðendur voru kosnir þeir Jónas Finnbogason og Þorsteinn Magnússon. Alls urðu stjórnarfundir 8 talsins og var síðasti stjórnarfundur sá 120. frá upphafi. Einnig var haldinn einn vinnufundur.

Félagar í Félagi um skjalastjórn eru nú 184 og hefur fækkað um 2 á árinu. Nítján nýir félagar hafa gengið til liðs við félagið og 21 hætt af ýmsum ástæðum.

Á þessu ári kom félagatalið út í prentuðu formi. Félagatalið birtist einnig á heimasíðunni sem uppfærð er u.þ.b. þrisvar sinnum á ári skv. samkomulagi við umsjónarmann hennar.

Á árinu ræddi stjórnin um uppsetningu og vinnubrögð við útsendingu bréfa til félagsmanna. Varð undirrituðum ljóst að margir yngri félagsmenn hafa enga þjálfun eða kennslu hlotið á sinni skólagöngu eða störfum um þessi efni, formaður sjálfur þar meðtalinn. Til að tryggja þau vönduðu vinnubrögð sem eðli málsins samkvæmt skulu vera aðalsmerki félagsins, var ákveðið að gera verklagsreglur fyrir stjórn og fræðsluhóp. Bíður það næstu stjórnar að ljúka við þær. Einnig barst það í tal að líklega væri viðeigandi að Félag um skjalastjórn byggi yfir bréfalykli til að skipuleggja skjalasafn sitt.

Stjórninni til fulltingis voru sex hópar og nefndir; fræðsluhópur, formaður Margrét Eva Árnadóttir, kynningarhópur og siðanefnd þar sem Magnús Guðmundsson gegndi formennsku, orðanefnd undir formennsku Stefaníu Júlíusdóttur, staðlahópur sem Salbjörg Óskarsdóttir fór fyrir, útgáfunefnd undir stjórn Svanhildar Bogadóttur og laga¬nefnd en Anna Magnúsdóttir var formaður hennar. Öllum nefndarmönnum eru færðar þakkir fyrir góð störf í þágu félagsins.

Tveir þættir eru meira áberandi í starfi félagsins en aðrir en það eru fræðslufundir og heimsóknir á vegum fræðsluhóps og útgáfa fréttabréfsins. Frá störfum fræðsluhóps er sagt í skýrslu hans. Í þessari skýrslu er stuttlega minnst á verkefni annarra hópa.

Fréttabréf Félags um skjalastjórn kom út tvisvar á starfsárinu og þriðja tölublaðið er í prentun þannig að fréttabréf starfsársins verða þrjú talsins. Ritstjóri er Svanhildur Bogadóttir og Salbjörg Óskarsdóttir hefur séð um umbrot. Nokkuð erfiðlega hefur gengið að fá efni í blaðið og eru félagsmenn hvattir til þess að senda bæði styttra og lengra efni til ritstjóra.

Kynningarhópur hélt ekki fundi á starfsárinu en nokkurt upplag er enn til af kynningarbæklingi þeim er prentaður var fyrir 2 árum. Hann hefur m.a. verið sendur með bréfi því sem nýjum félögum er sent og legið frammi á fundum. Ráðgert er að senda út eitt tölublað af fréttabréfi félagsins ásamt kynningarbréfi til allra héraðsskjalasafna á landinu.

Siðanefnd félagsins bárust engin erindi á árinu.

Orðanefnd hélt ekki fundi á árinu.

Staðlahópur hélt ekki formlega fundi á árinu en nefndarmenn fylgjast með málefnum á sínu sviði.

Laganefnd bárust ekki tillögur um lagabreytingar á starfsárinu og hélt ekki fundi.

Í lok þessarar skýrslu vil ég færa samstarfsfólki mínu í stjórn félagsins og nefndum og hópum þakkir fyrir samstarfið á árinu. Félagsmenn fá sömuleiðis þakkir fyrir að hafa sýnt áhuga á málefnum félagsins með góðri aðsókn að fræðslufundum.

25. apríl 2001

Sigurður Þór Baldvinsson

formaður

Copyright © 2016 IRMA. All Rights Reserved. Hönnuð af Davið og Golíat.

Félag um skjalastjórn kt. 580189-2029 Pósthólf 8731, 128 Reykjavík